Landneminn
Örsaga

Þegar heitir geislar hásumarsólarinnar milduðust í síðdeginu þótti Pétri nokkrum Gunnlaugssyni meir en nóg um. Svitin perlaðist á enni hans þar sem hann gólaði hástöfum og hleypti örvum af streng með spenntum boga sínum sem svo vildi til að væri gerður úr lofti. Hitastigið var loksins að verða nógu bærilegt til að hægt væri að fara út á lygna ána á byttunni sem hann og vinir hans höfðu smíðað úr afgangstimbri og rekaviði. Oll abord, hafði Friðrik vinur hans sagt þegar hann vígði þetta myndarfley sem færi brátt með þá eftir stórfljótum þessarar heimsálfu. Þangað sem hugann lysti, að því gefnu að þeir kæmu aftur heim fyrir rökkur.
Pétur Gunnlaugsson var Svarfdælingur á tíunda aldursári sem var kominn, að því er honum virtist, út að endimörkum veraldar. Að minnsta kosti langt út fyrir endimörk þeirrar veraldar sem hann hafði nokkra vitneskju um. Hann hafði þó gert heiðarlega tilraun til að fræðast um tilvonandi heimkynni sín, það land sem heita átti Nýja-Ísland. Hann hafði sótt óformlegar kennslustundir í ensku hjá séra Hjörleifi á Tjörn en hafði þó lítið lært utan kveðja og frasa, sem hann átti þar að auki í þvílíkum erfiðleikum með að bera fram, að ólíklegt væri að nokkur hreinræktaður Kanadamaður kæmi til með að skilja hann, byði hann honum góðan daginn. Pétri til mikillar ánægju hafði ekki mikið reynt á takmarkaða enskukunnáttu hans þar vestra. Íslendingarnir héldu hópinn. Á ferðalögum sínum hafði hann klofið Atlantshafið á skipi sem var á stærð við heilan fjörð og síðan skorið teinarák í hið endalausa haf skóga og gresja sem þekur þetta fyrirheitna land. Þrátt fyrir að vera smár og renglulegur leit Pétur á sig sem sannan landnema, hann var ekki af ætt þeirra sem létu sig hafa harðræði jarla og konunga heldur þeirra sem sóttu frelsið til miskannaðra landa. Þó honum hafi auðvitað verið það sárt að kveðja vini sína og heimahagana velti hann sér ekki upp úr því vegna fullvissu hans um það að um síðir kæmu þeir allir vestur hvort eð væri. Móðir hans og yngri bróðir voru látin. Þau lutu í lægra haldi suður í Gimli fyrir sóttinni enda hafði langur vetur verulega sorfið að íslensku landnemunum þennan fyrsta vetur þeirra í heimsálfunni miklu sem þeir álitu þegar sína eigin. Pétur varð þess fljótt áskynja að allt virtist hér stærra og meira en heima á Íslandi. Raunar virtist ekkert standast neinn samanburð heima bæði að dýr- og ömurleika. Hér gátu stöðuvötn gleypt báta með manni og mús og skógurinn verið svo þykkur að ætlaði maður á hinn endann þyrfti maður að höggva sig í gegnum hann grein fyrir grein. Þegar þeir feðgar höfðu grafið móður Péturs og bróður héldu þeir af stað með hópi landnema norður eftir vesturströnd Winnipeg-vatns, norður í átt að því landi sem þeir hugðust eigna sér og þessum útvalda hóp Sann-Íslendinga. Við ósa fljótsins Hvítu-Leirár (White Mud River) hafði Íslendingum verið lofuð spilda til landnáms og varð sá kostur álitlegri feðgunum eftir harmþrunginn og kaldan vetur í frumstæðum bjálkakofum í Gimli. Þeir vildu báðir halda förinni áfram enda hefur eðlisfræðin sýnt okkur að það getur verið erfitt að nema staðar þegar maður hefur á annað borð lagt upp í ferðalag líkt og þeirra. Þegar maður hefur yfirgefið heiminn til að byggja nýtt samfélag handan við endimörk heimsins.
Það var þá, við ós fljóts við Winnipeg-vatn árið 1876, að þrír ungir piltar sátu um borð í lítilli lekri byttu þegar skothvellir rufu kyrrðina. Söngur þrastanna og þungur niður fljótsins þögnuðu þó ekki. Skothvellir voru þeim ekkert framandi frekar en skrölt lesta eða skotthúfur og ferskeytlur. Enn steyptist fljótið þungt í vatnið endalausa og áfram héldu stórhvelaveiðar piltanna ungu, þó þær hafi bara verið í þykjustunni. Enginn kippti sér upp við hvellina fyrr en kænur indjána birtust ofar í fljótinu á fleygiferð. Það var þá sem strákunum hætti að lítast á blikuna. Þeir hljóta nú bara að vera á gæsaveiðum, sagði annar þeirra og við það bætti hinn að þar hlyti nú að fara hinn mikli John Ramsey með allt hans lið, indjánahöfðinginn mikli. Þetta var langt því frá fyrstu kynni drengjana af frumbyggjaþjóðum álfunnar. Af rauðskinnum (á þá nafngift er ekki litið jafnblíðum augum í dag en undir því nafni gengu John Ramsey og hans menn í máli Vestur-Íslendinga lengi vel) höfðu þeir margar sögur heyrt. Pabbi sagði að John Ramsey skæri af mönnum skallann ef þeir hættu sér of nálægt kartöflugarðinum hans. Hann þurfti að fæla hann burt með bitlausri öxi þegar þeir fóru að sækja timbur yfir ána um daginn. Þetta heyrir Pétur eða þykist heyra, hann meðtekur það ekki. Honum er starsýnt á kænurnar í fjarska, þar sem rétt má greina sítt, tinnusvart hárið frá andlitum mannanna, rifflana frá árunum. Hann veit ekki hvort hann sé að ímynda sér reiðileg svipbrigði þeirra eða hvort það sé eitthvað sem þessari fornu þjóð er eðlislægt. Þeir voru of langt í burtu til að hægt væri að greina andlitsdrætti með nokkurri vissu en samt var sem honum rynni kalt vatn milli skinns og hörunds. Við skulum flýta okkur upp í kofa, segir hinn þá og því jánkar Pétur með því að skella árinni með krafti ofan í kalt fljótið, enn horfir hann í buskann. Tveir byssuhvellir fylgja fast á hælana hver á öðrum og óma um allt umhverfið. Enginn drengjanna hefur heyrt slíkan skell án bergmáls, eins og hann fjúki burt undir eins og hann ríður yfir. Pétur lítur ekki af indjánaflokknum uns þeir leggjast að bakkanum, þeim megin fljótsins sem kofi Húdsonflóafélagsins stendur, en hann hafa landnemarnir tekið sér að griðarstað á meðan bæir þeirra standa hálfreistir. Innra með sér finnur hann bærast tvær kenndir en hvorug þeirra var skelfing. Þegar búið var að koma byttunni á bakkann biðu drengirnir ekki átekta heldur þutu upp að bjálkakofa Húdsonfélagsins. Kofahróflið stóð miður tígulegt á litlu holti ofan við árbakkann. Strákarnir þyrpast inn dyrakarminn og falla næstum hvor um annan, móðir og másandi. Þeir tilkynna feðrum sínum sem var að bráðum væri von á gestum.
Þeir voru ekki eins og í sögunum sem Pétur hafði heyrt, þessir indjánar. Þeir báru engar fjaðrakórónur, bogar þeirra stóðu ekki síspenntir, þeir voru flestir íklæddir leðurstígvélum sem virtust af sömu gerð og bróðir hans hafði verið grafin í. Indjánarnir voru ekki ýkja margir, um fimmtán eftir því sem Pétur taldi. Hann færði sig innst inn í dimman kofann þegar indjánaflokkurinn ruddist inn án þess að mæla orð af munni. Við tók löng þögn eftir að indjánarnir hagræddu sér þar sem þeir settust á rakt bjálkagólfið og hvísluðust sín á milli. Í hinum enda hússins stóð hópur Íslendinganna ráðalausir og vissu ekki hvort þeir ættu að gera áhlaup eða opna brennivínsflöskuna. Af ákveðnum svipdráttum frumbyggjanna og hlöðnu rifflunum í skautum þeirra þóttust þeir geta lesið að þeir væru ekki komnir í innflutningsveislu. Loks hóf einn indjánanna upp raust sína og virtist Íslendingunum flytja langa formælingaræðu á máli sínu sem enginn þeirra skildi bofs í. Hann baðaði út höndum sínum og tvær kolsvartar fléttur sveifluðust til og frá á hnakka hans. Hann lauk tölu sinni við fagnaðarlæti indjánanna. Í ráðaleysi sínu stakk faðir Péturs upp á því að bjóða þeim upp á hressingu. Pétur gat með engu móti slitið sig frá Ramsey og góndi á hann. Augnaráð þeirra mættust og indjánahöfðinginn mikli brosti blíðlega til hans. Tappanum var rykkt úr brennivínsflöskunni í einu vetfangi. Staup voru reidd fram við litlar undirtektir gestanna. John Ramsey mælti nokkur orð sem uppskáru hlátrasköll úr röðum frænda sinna. Í senn voru þau sáttarorð og formælingar. Í einni bölvun bjuggu áar hans árþúsund aftur í tímann og í þeim börðust niðjar hans til dagsins í dag. Hann sagði, þó enginn aðkomumannanna næmi það: „Ég vildi að ég hræddi litla strákinn minn eins og þennan, þá lærði hann kannski loksins að róa eins og maður.“

